Fara í efni

Útgáfutónleikar Arons Óskarssonar í Hofi

Aron Óskarsson, Dalvíkingur, ásamt hljómsveit, verður með útgáfutónleika í Menningarhúsinu Hofi fimmtudaginn 14. júlí kl 20. Þetta eru þriðju tónleikarnir í sumardagskrá Menningarfélagsins í samvinnu við 1862 Nordic Bistro.

Á tónleikunum munu Aron og hljómsveit hans frá Dalvík spila tónlist af glænýrri og fyrstu plötu Arons, Activisual.  Á plötunni eru 12 lög en Aron segir að þetta sé  „popp/rokkplata með kántrí- og þjóðlagaívafi og lögin séu jafn misjöfn og tilfinningarnar á bak við þau“.  Gaman er að segja frá því að sum lögin eru frá því hann var 15 ára gamall og önnur frá því að upptökuferlið hófst. Aron er einn af þeim fyrstu úr dægurlagageiranum til að nýta sér aðstöðu Hofs til að hljóðrita tónlist og því vel við hæfi að útgáfutónleikar hans séu einmitt í sama sal og tónlistin var hljóðrituð, Hömrum. Aron segir „platan lýsir ferðalagi mínu í áttina að því að verða tónlistarmaður og þeim áfanga sem útgáfa hennar markar“.  Þetta verða því forvitnilegir og einlægir tónleikar.

Hljómsveitina skipa:
Hans Friðrik H. Guðmundsson spilar á Hammond/Píanó, Dagur Halldórsson á gítar, Hjörvar Óli Sigurðsson  á bassa og syngur bakraddir, Dagur Atlason spilar á trommur. Auk þess mun Ásdís Arnardóttir spila á selló í nokkrum lögum og Aron Óskarsson spilar á gítar og syngur.

Sumardagskrá Menningarfélags Akureyrar og 1862 Nordic Bistro eru styrktir af Bílaleigu Akureyrar, Whale Watching Akureyri og Tuborg!

Til baka