Fara í efni

Nýtt starfsár MAk

Gunnar Gunnsteinsson
Gunnar Gunnsteinsson

Kæru Norðlendingar og aðrir landsmenn

Nú er komið að stóru stundinni, að kynna í fyrsta skipti vetrardagskrá Menningarfélags Akureyrar - MAk. Við höfum beðið þessa dags í ofvæni og er óhætt að segja að við séum stolt af þeirri fjölbreyttu og metnaðarfullu dagskrá sem er framundan hjá okkur í vetur.

Um síðustu áramót tók MAk við rekstri Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Menningarhússins Hofs. Þessi breyting skapar ekki einungis rekstrarleg tækifæri, heldur einnig tækifæri til að geta boðið Norðlendingum upp á fjölbreytta menningardagskrá.

Dagskráin okkar er fjölbreytt.  Við leggjum metnað í að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Sérstök áhersla verður lögð á barna og fjölskyldusýningar þetta fyrsta starfsár okkar.  Stærsta verkefni vetrarins hjá Leikfélagi Akureyrar í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarhúsið Hof veður ný uppfærsla á fjölskylduverkinu Pílu Pínu eftir Heiðdísi Norðfjörð og Kristján frá Djúpalæk.  Heil kynslóð ólst upp við að hlusta á plötuna og er óhætt að segja að sagan af litlu hugrökku músinni, sem leggur í ferðalag til að leita uppruna móður sinnar, snertir streng í hjarta margra.  Leikstjóri er Sara Martí Guðmundsdóttir og tónlistastjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.  Arnar Jónson snýr aftur á heimaslóðir þegar hann leikur í verkinu Býr Íslendingur hér?  Bók Garðar Sverrissonar í leikgerð Þórarins Eyfjörð, byggð á minningum Leifs Muller úr fangabúðum nasista, vakti mikla athygli á sínum tíma.  Verkið er frumsýnt í Samkomuhúsinu í september í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Hér tökumst við á við erfiða tíma í heimssögunni og minnum okkur á ábyrgðina sem fylgir því að vera maður. Í Hofi ætla Saga Garðarsdóttir og Halldór Laxness Halldórsson (Dóri DNA) að frumsýna nýtt verk eftir þau sjálf; Þetta er grín, án djóks. Grýla verður á vappi í Samkomuhúsinu á aðventu og svo ætla fimm trúðar að takast á við það spennandi verkefni að bjarga ,,versta leikriti Íslandssögunnar”, Helgi hinn magri, eftir þjóðskáldið Matthías Jochumson í apríl.   

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur veturinn næstkomandi föstudag með því að bjóða Akureyringum og gestum til pallasöngs, þar sem sungið verður saman við undirleik sinfóníunnar í tilefni nýs tónleikaárs og Akureyrarvöku. Strax í kjölfarið verður konsert uppfærsla á Ávaxtakörfunni og Skilaboðaskjóðunni. Jóhann G. Jóhannsson stjórnar hljómsveitinni og munu Stefán Karl Stefánsson, Selma Björnsdóttir, Eyþór Ingi Gunnlaugsson og Sigríður Thorlacíus ljá persónunum rödd sína. Dimma ætlar að hrífa Sinfóníuhljómsveit Norðurlands með sér inn í sinn heim í október. Jólaóratóría J.S. Bach verður flutt 20. desember undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Gréta Salóme mun frumflytja efni sem hún sýnir fyrir Disney næsta sumar en þar má heyra margar af þekktustu perlum teiknimyndanna í bland við hennar eigin efni. Bjarni Daníelsson og Eva Guðný fiðluleikari munu bjóða okkur upp á Mozart í apríl. Guðmundur Péturson frumflytur verk eftir sig fyrir rafmagnsgítar og sinfóníuhljómsveit í mars. Tvö verk í viðbót verða frumflutt á árinu; Völuspá eftir Þorvald Bjarna og nýtt verk samið af Kjartani Valdimarssyni fyrir sinfóníuhljómsveitina og Stórsveit Reykjavíkur en Sigurður Flosason mun þreita frumraun sína á þeim tónleikum sem stjórnandi sinfóníuhljómsveitar. Einnig verður fleira í boði eins og Kristjana Arngrímsdóttir með tónleika tileinkaða konum í nóvember, Töfrahurðin fyrir yngstu áhorfendurna verður í janúar, Värttinä frá Finnlandi undir stjórn Guðna Franzsonar í febrúar.

Hér er þó aðeins tæpt á því helsta af þeim 20 viðburðum sem framleiddir eru á árinu.  Einnig mun Menningarhúsið Hof bjóða fjölda listamanna velkomna og nægir þar að nefna Friðrik Ómar sem verður með Tinu tónleika og einnig nyja jólatónleika í desember, Norðurljósin, Óperudraugana, Nýdönsk, Karlakórinn Heimi og Ljótu hálvitana svo lítið eitt sé týnt til.  Hof fagnar 5 ára afmæli núna í ágúst og er ljóst að bygging þessa menningarhúss hefur verið gæfuspor fyrir menningarlífið og bætta aðstöðu til ráðstefnu og fundarhalda norðan heiða. 

Samstarf við listamenn og aðrar stofnanir er eitt af lykilatriðum í rekstri MAk.  Á dögunum var gengið frá samkomulagi um menningarbrú milli Hofs og Hörpu sem nú þegar er farið að skila sér í spennandi samstarfi á komandi vetri þegar Dimma og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands spila 31. október í Hörpu. Þá munu Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið sækja Norðlendinga heim ásamt fjölda annarra viðburðahaldara og sjálfstæðra sviðslistahópa. 

Vert er að minnast á að leiklistarskóli Leikfélags Akureyrar mun hefja starfsemi sína í september og stendur yfir skráning fyrir skapandi krakka á www.MAk.is.

Með langa og farsæla sögu leikfélagsins, eldmóð og kraft sinfóníuhljómsveitarinnar og frábæran húsakost Hofs eru okkur allir vegir færir.

Kæru norðlendingar og aðrir landsmenn, við hlökkum til að taka vel á móti ykkur í Samkomuhúsinu og Hofi á Akureyri næsta vetur.

 

Gunnar I. Gunnsteinsson

Framkvæmdastjóri MAk

gunnar@mak.is

Til baka