Fara í efni

Kvikmyndatónlistararmur Menningarfélags Akureyrar fær risaverkefni

Hilmar Sigurðson, Atli Örvarsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson við undirritunina.
Hilmar Sigurðson, Atli Örvarsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson við undirritunina.

Menningarfélag Akureyrar semur við Atla Örvarsson kvikmyndatónskáld vegna innspilunar og upptöku tónlistarinnar í kvikmyndinni “Lói-þú flýgur aldrei einn".

Þetta er stærsta verkefni Arctic Cinematic Orchestra eða ACO, sem er kvikmyndatónlistaarmur Menningarfélags Akureyrar. ACO getur boðið kvikmyndaiðnaðinum upp á hágæða upptökur á kvikmyndatónlist í menningarhúsinu Hofi með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem þar býr og er hluti af MAk. Þessi nýja tegund af þjónustu varð til fyrir tæpu ári, að tilstuðlan tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar, Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar.

Friðrik Erlingsson skrifar handrit myndarinnar „Lói – þú flýgur aldrei einn“ og Árni Ólafur Ásgeirsson leikstýrir, ásamt Gunnari Karlssyni, sem jafnframt er höfundur útlits og persóna. Þeir Hilmar Sigurðsson og Haukur Sigurjónsson hjá GunnHill eru framleiðendur myndarinnar, auk Ives Agemans hjá Cyborn í Belgíu. Kvikmyndin er sú næstdýrasta sem gerð hefur verið hér á landi, en framleiðslukostnaður hennar er um einn milljarður króna.

Þýska fyrirtækið ARRI Media fer með heimssölurétt á myndinni og hefur hún þegar verið seld til sýninga í kvikmyndahúsum til yfir 30 landa. Sena dreifir kvikmyndinni á Íslandi og er gert ráð fyrir að hún verði sýnd á Íslandi um jólin 2017. 

Fyrst til að nýta þjónustu MAk og ACO var hin knáa Greta Salóme með Disney-verkefnið sitt. Í kjölfarið tók Dalvíkingurinn Aron Óskarsson upp plötu sína í Hofi með hljómsveitinni. Atli Örvarsson kvikmyndatónskáld, þá  í Hollywood, veðjaði á ACO og tónlistin við kvikmyndina “The Perfect Guy” var tekin uppí Hofi. Sú mynd var söluhæsta myndin í Bandaríkjunum í september 2015.

 

Til baka