Fara í efni

Helgi magri. Fyrsta frumsýning vetrarins hjá Menningarfélagi Akureyrar

 Menningarfélag Akureyrar hefur viðburðaríkan vetur þann 2. september með frumsýningu á Helga magra í Samkomuhúsinu. Þetta er ný kómísk og kærleiksrík spunasýning sem hefur sögulega tengingu við Matthías Jochumsson og Eyjafjörð.   

 Trúðar sviðsetja „versta“ leikrit Íslandssögunnar! 

Fjórir trúðar hafa í kærleika og einlægni tekið að sér það krefjandi verkefni að sviðsetja leikrit Matthíasar Jochumssonar sem var frumsýnt í skemmu á Eyrinni árið 1890 í tilefni af þúsund ára afmæli landnáms í Eyjafirði. Uppsetningin fyrir 125 árum síðan var íburðarmikil og glæsileg en sú uppfærsla er fyrsta og eina uppsetningin á verkinu. Stóra spurningin er hvers vegna hefur verkið ekki verið sett upp síðan þá? Svarið virðist liggja í augum uppi þegar höfundurinn sjálfur talar um það sem  „sáraófullkomið drama“. Verkið er einfaldlega ekki nógu gott. Hvað er þá til ráða? Geta trúðar, sem eru fróðir og forvitnir um allt sem viðkemur Eyjafirði, náð að blása í verkið lífi?   

"Landnámi lýkur aldrei. Það eru alltaf landnemar. Landnemar í von um líf í friði hinu megin við hafið."

Þessi trúðasýningin er samsköpun leikhópsins sem útfærir alla listræna þætti sýningarinnar sjálfur; leikmynd, búninga, lýsingu, myndband og sviðsetningu. Trúðarnir stýra sjálfir allri tækni. Engin sýning er eins, þær eru allar einstakar

Leikarar og höfundar: Benedikt Karl Gröndal/Pétur  Halldóra Malín Pétursdóttir/Tómas, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir /Brynhildur og Kjartan Darri Kristjánsson/Sigfús

Listrænir stjórnendur og höfundar: Jón Páll Eyjólfsson og Þóroddur Ingvarsson.

 Ljósmyndari: Auðunn Níelsson

Til baka