Fara í efni

Breyting á dagskrá Menningarsumarsins

Marína Ósk
Marína Ósk

Fyrirhugaðir tónleikar Völu Guðnadóttur og Þórs Breiðfjörð, sem fara áttu fram í dag föstudag og á morgun laugardag hafa verið felldir niður. Ástæðan er sú að Þór Breiðfjörð er alveg raddlaus sökum veikinda og getur því ekki komið fram eins og áður var fyrirhugað.

Við erum hins vegar svo heppin að bærinn okkar er fullur af listafólki og tókst að fylla í tónleikaskörðin á mettíma.

Í dag, föstudag, mun Marína Ósk hlaupa í skarðið fyrir þau Völu og Þór með tónleika sem hún kallar “Ég er komin heim”. Á morgun, laugardag, taka síðan Vandræðaskáldin við keflinu og flytja okkur tónleika sem bera yfirskriftina “Útför – saga ambáttar”. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan 14 og fara fram í Hömrum í Hofi eins og aðrir viðburðir Menningarsumarsins.

Þess má þó geta að Vala Guðnadóttir og Þór Breiðfjörð eru væntanleg til okkar í ágúst og munu þau halda ferna tónleika helgina 8. og 9. ágúst. Þangað til erum við svo lánsöm að fá að njóta hæfileika þeirra Marínu Óskar, Sesselíu og Vilhjálms. Önnur dagskrá helgarinnar helst óbreytt en einleikurinn Let´s talk Arctic verður fluttur föstudags- og laugardagskvöld klukkan 20 og á sunnudaginn mun Eyþór Ingi leggja Hof undir sig þegar hann heldur tvenna tónleika ásamt Hallgrími Ómarssyni. Tilhlökkunin er mikil í Hofi og bjóðum við alla gesti okkar hjartanlega velkomna á viðburði helgarinnar.

Föstudaginn 17. júlí kl. 14

Ég er komin heim

Marína Ósk er 28 ára söngkona og hljóðfæraleikari, ættuð frá Keflavík en búsett í Amsterdam og eyðir nú sumrinu á Akureyri. Hún spilar íslensk dægurlög í bland við eigin tónlist og leikur ýmist á gítar eða píanó. Marína Ósk hefur komið fram við ýmis tilefni og hefur sungið og spilað síðan hún var lítil. Hún stundar nú nám við Conservatoriuna í Amsterdam en þar lærir hún jazzsöng. 

Laugardaginn 18. júlí kl. 14

Útför - saga ambáttar

Vandræðaskáldin Sesselía Ólafsdóttir, leikkona og leikstjóri, og Vilhjálmur B. Bragason, leikskáld, flytja eigin lög og ljóð, auk frumsaminna laga við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Mörg frumsömdu laganna eru hluti af sýningu Vandræðaskálda, Útför - saga ambáttar og skattsvikara, sem sýnd verður á Akureyri í haust.

Til baka