Fara í efni

Atli Örvarsson og draumasmiðjan

Þann 30. apríl kl. 16 mun kvikmyndatónskáldið Atli Örvarsson stjórna Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í flutningi á eigin tónlist í Menningarhúsinu Hofi í heimabæ sínum, Akureyri. Efnisskráin er að mestu svítur eftir Atla úr ýmsum kvikmyndum, innlendum sem erlendum, og sjónvarpsþáttum. Þar má nefna Stuart Little, Hansel & Gretel: Witch Hunters, Chicago Fire (Neyðarvaktin) og Hrúta, sem vann Un certain regard verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2015. Auk þess frumflutt nýtt hljómsveitarverk.

Atli er vafalítið afkastamesti tónsmiður Íslands á sviði kvikmynda og samkvæmt kvikmyndavefnum IMDB hefur hann komið að gerð tónlistar fyrir fleiri en 40 kvikmyndir, auk hundraða sjónvarpsþátta. Hann hefur starfað sleitulaust við tónsmíðar síðustu 18 árin, lengst af í Los Angeles. Hann flutti nýverið heim til Akureyrar með fjölskyldu sína og vinnur nú héðan.

Atli hefur unnið til fjölda verðlauna á ferlinum, m.a. Hörpuverðlaunin 2016, sem eru Norrænu kvikmyndatónlistarverðlaunin, og hlotið fjölmargar viðurkenningar frá ASCAP og BMI í Bandaríkjunum. Auk þess hefur hann verið tilnefndur til World Soundtrack Awards. Síðustu misseri hefur hann gert tónlist við þáttaraðir á NBC sjónvarpsstöðinni sem kenndar eru við Chicago og eru nú orðnar fjórar talsins, Chicago Fire, PD, Med og Justice. Af þeim kvikmyndum í Ameríku sem nafn Atla hefur skrýtt hafa tvær, Vantage Point og The Perfect Guy, náð að tróna á toppnum sem aðsóknarmestu myndirnar þar vikuna sem þær komu út. Atli hefur auk þess átt tónlist í mörgum stórmyndum sem hluti af teymi hins heimskunna tónskálds Hans Zimmer, t.d. The Holiday, Pirates of the Caribbean, The Simpsons Movie, Angels & Demons og Man of Steel.

Umgjörð tónleikanna í Hofi verður öll hin glæsilegasta og sannkölluð veisla bæði fyrir eyru og augu, því þar mun m.a. fyrir augu bera myndskreytingar úr þeim kvikmyndum og þáttum sem tónlistin kemur úr. Auk Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands koma fram Kammerkór Norðurlands og söngkonan Þórhildur Örvarsdóttir. Einleikarar verða Caroline Dale á selló og Greta Salóme á fiðlu. Stjórnandi verður Atli Örvarsson.

 

Sem sagt, kvikmyndatónlistarveisla á heimsmælikvarða í Hofi á Akureyri!   

 

Hægt að kaupa miða hér.

 

Til baka