Fara í efni

Af nógu að taka í Hofi á Akureyrarvöku

Hinn ungi og efnilegi Steinar treður upp á tónleikum í Hamraborg kl 20 á föstudagskvöld.
Hinn ungi og efnilegi Steinar treður upp á tónleikum í Hamraborg kl 20 á föstudagskvöld.

Það verður nóg um að vera í menningarhúsinu Hofi á Akureyrarvöku. Föstudaginn 26. ágúst kl. 18 opnar Samúel Jóhannsson, myndlistamaður,  afmælissýningu sína í Hamragili og hinn ungi og efnilegi Steinar treður upp í Hamraborg kl. 20 þennan sama dag. Hér gefst afar gott tækifæri fyrir unga sem aldna að hlusta á Steinar og hljómsveit flytja glænýtt frumsamið efni í bland við eldri slagara. Hann skaust uppá sjónarsviðið 2013 þá aðeins 18 ára gamall með sína fyrstu plötu Beginning en þar má m.a. finna lagið UP sem sló rækilega í gegn. Á þessu ári hefur hann gefið út þrjár smáskífur sem hafa náð miklum vinsældum Say You Love, All The Same og Young.  Það styttist í útgáfu nýrrar plötu Steinars og hér er því kjörið tækifæri til að hlusta á glænýtt efni og njóta.

Menningarhúsið mun iða af lífi á ný frá kl. 12 laugardaginn 27. ágúst þá gefst gestum hússins tækifæri til að sjá lifandi stiklur úr Helga magra, sem er kómískt og kærleiksríkt spunaverk. Helgi magri er 220. sviðsetning LA og fyrsta verk starfsárs MAk í ár.  Helgi magri verður frumsýndur 4. september næstkomandi í Samkomuhúsinu.   Laufléttur spurningaleikur fyrir gesti verður í Nausti þennan dag frá kl. 12- 16. Þá munu gestir svara spurningunum í tölvu og dregið verður úr réttum lausnum 30. ágúst. Átta heppnir vinningshafar fá gjafakort frá MAk.  Áskriftarkortasala á viðburðaríkan vetur Menningarfélagsins hefst auk þess kl.12 þennan dag og verður til kl 18.  Um miðjan dag, nánar tiltekið kl. 16, mun húsið óma af kröftugri blásaratónlist þegar The Upper Rhine Youth Wind Band, sem er  60 manna blásarasveit frá Þýskalandi skipuð ungu fólki frá 16-25 ára, hefur leik í Hömrum.  Á laugardagskvöldinu kl. 22 mun göróttur jazzseiður líða um húsið og því tilvalið fyrir bæjarbúa og gesti þeirra að kíkja við á göngu þeirra um bæinn. Það er Hljómsveitin TUSK sem skipuð er þeim Pálma Gunnarssyni, Birgi Baldurssyni, Eðvarð Lárussyni og Kjartani Valdemarssyni sem munu fremja seiðinn.  Sannkölluð jazzstemning mun svífa yfir vötnum við 1862 Nordic Bistro hér í Hofi þetta kvöld.

Akureyrarvökuhelginni í Hofi lýkur sunnudaginn 28. ágúst kl. 13 með hádegisjazzi á 1862 Nordic Bistro þar sem hinn heimskunni trommuleikari Jeff Herr leikur ljúfan jazz ásamt þeim Sigurði Flosasyni, Kjartani Valdemarssyni og Þorgrími Jónssyni.

Vert er að benda á að enginn aðgangseyrir er á tónleika og aðra viðburði í Hofi á Akureyrarvöku og allir eru hjartanlega velkomnir.  

Til baka