Fara í efni

Æfingar hafnar á Helga magra

Æfingar eru hafnar á verkinu Helga magra sem frumsýnt verður 2. september næstkomandi kl 20 í Samkomuhúsinu.  Helgi magri er söguleg, kómísk og kærleiksrík spunasýning. Engin sýning verður eins, þær verða allar einstakar. 

Æfingar ganga vel þó trúðslætin séu nokkur enda eru það trúðar sem nú sviðsetja leikrit Matthíasar Jochumssonar  Helgi magri. Verkið  var frumsýnt í skemmu á Eyrinni árið 1890 í tilefni af þúsund ára afmæli landnáms í Eyjafirði. Uppsetningin fyrir 126 árum síðan var íburðarmikil og glæsileg en sú uppfærsla er fyrsta og eina uppsetningin á verkinu. Hvers vegna hefur verkið ekki verið sett upp síðan þá? Svarið virðist liggja í augum uppi þegar höfundurinn sjálfur talar um það sem  „sáraófullkomið drama“. Verkið er einfaldlega ekki nógu gott. Hvað er þá til ráða? Geta trúðar, sem eru fróðir og forvitnir um allt sem viðkemur Eyjafirði, náð að glæða verkið lífi?  Þeir eru sannfærðir um þeir geti bjargað þessu hræðilega leikriti. Það verður spennandi og kómískt að fylgjast með hvernig til tekst.

Helgi magri er 320. sviðsetning Leikfélags Akureyrar.  

Þessi trúðasýningin er samsköpun leikhópsins sem útfærir alla listræna þætti sýningarinnar sjálfur.

Leikarar og höfundar: 
Benedikt Karl Gröndal, Halldóra Malín Pétursdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson.

Listrænn stjórnandi er Jón Páll Eyjólfsson. 

Miðasala er hafin á mak.is - tryggðu þér miða.

 

Til baka